Glitnir hefur gengið frá rammasamningi um útgáfu sérvarinna skuldabréfa (e. covered bonds) tengd húsnæðislánasafni bankans. Heildarupphæð samningsins nemur eitt hundrað milljörðum króna og var uppsetning rammasamningsins í höndum Deutsche Bank. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Skuldabréf sem gefin verða út innan rammasamningsins verða til fjármögnunar á íbúðalánum bankans á Íslandi og munu þau fá hæstu möguleiku lánshæfiseinkunn, Aaa, frá lánshæfismatsfyrirtækinu Moody?s Investors Service. Það er saman lánshæfiseinkunn og skuldabréf útgefin af íslenska ríkinu og skuldabréf með ríkisábyrgð hafa fengið.

Bankinn hefur jafnframt gert samning við Citigroup þar sem að Citigroup skuldbindur sig næstu 5 árin til þess að kaupa sérvarin skuldabréf Glitnis fyrir fjárhæð sem jafngildir allt að 550 milljónum evra. Þetta tryggir Glitni aðgang að fjármagni sem samningsfjárhæðinni nemur og styrkir þar með lausafjárstöðu bankans.

Kjör eru trúnaðarmál en þau eru mun hagstæðari en bankinn hefur notið að undanförnu vegna tengingarinnar við húsnæðislánasafn bankans. Samningurinn skuldbindur Glitni ekki til þess að selja bréfin til Citigroup þ.a. bankinn hefur sveigjanleika til þess að nýta sér enn hagstæðari tækifæri til útgáfu sem kynnu að gefast í framtíðinni.

Ingvar H. Ragnarsson, forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar Glitnis, segir þessa tvo samninga vera mjög mikilvæga.

"Samningurinn við Citigroup styrkir lausafjárstöðu bankans enn frekar. Rammasamningurinn um sérvörðu skuldabréfin fjölgar möguleikum bankans til fjármögnunar en Glitnir hefur ávallt lagt mikla áherslu á fjölbreyttar fjármögnunarleiðir. Rammasamningurinn felur í sér sveigjanleika til þess að gefa út sérvörðu skuldabréfin þegar að bankanum hentar og markaðsskilyrði eru hagstæð,? segir Ingvar.

Í tilkynningu Glitnis segir að fjármögnun bankans hafi í heild gengið vel á árinu og nemur heildarfjármögnun bankans (móðurfélagsins) um fimmmilljörðum evra það sem af er árinu. Fjármögnun fór vel af stað á fyrstu vikum ársins og hafði bankinn gefið út skuldabréf að andvirði 1,4 milljarðar evra þegar neikvæð umræða um íslensku bankanna hófst.

Samhliða umfjölluninni jókst fjármögnunarkostnaður bankanna og náði hámarki á öðrum ársfjórðungi ársins. Á þessu tímabili hélt Glitnir sig að mestu til hlés en hefur á síðari hluta ársins lagt megináherslu á að styrkja bæði eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu bankans. Á fjórða ársfjórðungi hefur fjármögnunarkostnaður bankans lækkað á ný og nemur fjármögnun alls 1,6 milljörðum evra á fjórðungnum.