Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu rúmum 6,4 milljörðum króna í júlí sem er tvöfalt hærri upphæð miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í mánarskýrslu sjóðsins.

Útlán Íbúðalánasjóðs hafa gengið vel að undanförnu og dregið hefur úr uppgreiðslum. Í kjölfarið hafa áætlanir fyrir þriðja og fjórða ársfjórðung verið endurskoðaðar og gera þær áætlanir ráð fyrir að heildarútlán sjóðsins verði 19 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi (áður 16 milljarðar) og að þau verði jafnframt 19 milljarðar á þeim fjórða (áður 17,6 milljarðar).

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2005 eru áætluð 75,0
milljarðar króna en fyrri áætlun gerði ráð fyrir 63,8 milljörðum króna, áætluð hækkun útlána nemur því um 18%. Að sama skapi hefur útgáfuáætlun íbúðabréfa aukist lítillega og er nú 16 milljarðar á þriðja ársfjórðungi, en var 13 milljarðar, og 19 milljarðar á þeim fjórða, en var 17,6 milljarðar. Í nýjum áætlunum er jafnframt gert ráð fyrir að greiðslur Íbúðalánasjóðs lækki um 2,0 milljarða á þriðja ársfjórðungi og 1,8 milljarða á þeim fjórða. Kann það m.a. að skýrast af því að hlutfall uppgreiðslna hefur verið hærra í rafrænum flokkum á móti pappírsflokkum en áður hafði verið gert ráð fyrir.