Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs rúmum 2,8 milljörðum króna í febrúar. Þar af voru ríflega 452 milljónir króna vegna leiguíbúðalána á meðan almenn útlán námu tæplega 2,4 milljörðum króna, en meðallán almennra útlána nam rúmlega 8,6 milljónum króna.

Ársreikningur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2007 var birtur þann 1. febrúar á vefsíðu Kauphallarinnar. Þar kemur fram að hagnaður ársins 2007 nam rúmum 2,5 milljörðum króna. Heildareignir jukust um tæpa 64 milljarða en hækkun var á útlánum sjóðsins um rúma 60 milljarða á árinu.

Eigið fé sjóðsins í árslok nam rúmum 20 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall sjóðsins sem reiknað er samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 544/2004 um Íbúðarlánasjóð (CAD-hlutfall) er 7,0% en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Þá námu hreinar vaxtatekjur námu 3.511 millj. kr. samanborið við 3.5 millj. kr. á árinu 2006.

Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði í febrúar 2008 um 20 - 51 punkta eftir flokkum. Ef litið er til upphafs ársins 2008 hefur ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkað um 45 – 155 punkta eftir flokkum.

Veltan með íbúðabréf á markaði var með líflegra móti í byrjun árs 2008 eða rúmlega 534 milljarðar króna á fyrstu tveimur mánuðunum, en á sama tíma í fyrra nam veltan tæplega 203 milljörðum króna. Veltan með íbúðabréf nam tæplega 174 milljörðum í febrúar 2008 en var rúmlega 94 milljarðar króna fyrir ári.

Þetta kemur fram á vef Íbúðarlánasjóðs