Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í febrúar námu 1,6 milljarði króna, en þar af voru 149 milljónir vegna almennra lána. Almenn útlán í janúar á þessu ári námu 266 milljónum króna, en meðalfjárhæð almennra lána var 9,3 milljónir króna, að því er kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 10,6 milljörðum í febrúar. Uppgreiðslur lána námu 3,3 milljörðum króna, en voru 2,9 milljarðar í janúar.

Í lok febrúar nam fjárhæð vanskilaútlána til einstaklinga 2,7 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 27,3 milljarðar króna eða um 5,4% útlána sjóðsins til einstaklinga. Heimili í vanskilum eru 1.309. Hlutfall undirliggjandi lánavirðis lögaðila í vanskilum lækkaði í mánuðinum. Fjárhæð vanskila útlána til lögaðila nam 3,0 milljörðum króna og nam undirliggjandi lánavirði 15,5 milljörðum króna. Tengjast því vanskil 10,7% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila.