Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs tæpum 2,1 milljarði króna í desember. Þar af voru tæpir 1,5 milljarðar vegna almennra lána og rúmar 600 milljónir vegna annarra lána.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs en heildarútlán sjóðsins lækkuðu því um 14% frá fyrra mánuði.

Meðalútlán almennra lána voru um 8,8 milljónir króna í desember sem er lækkun um 2% frá fyrra mánuði.

Heildarútlán sjóðsins námu rétt rúmum 30 milljörðum króna á árinu 2009 samanborið við rúma 64 milljarða króna á árinu 2008 en það samsvarar 48% samdrætti milli ára.