Ekkert lát er á tekjuvexti af erlendum ferðamönnum nú þegar hillir undir stærstu ferðamannamánuði ársins. Þetta sýna tölur Seðlabankans um greiðslumiðlun, sem Greining Íslandsbanka vísar í.

Alls nam heildarúttekt erlendra greiðslukorta hér á landi 8,7 milljörðum króna í maí síðastliðnum, sem er aukning upp á rúm 28% í krónum talið á milli ára. Hafa erlendir ferðamenn nú náð að strauja kortin sín fyrir 34 milljarða króna á fyrstu fimm mánuðum ársins, sem er 7,5 milljörðum króna hærri fjárhæð en þeir straujuðu kortin sín fyrir á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það aukningu upp á rúm 28% í krónum talið á milli ára.

Greining Íslandsbanka segir að þessi þróun sé í ágætu samræmi við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim fjölgaði erlendum ferðamönnum um rúm 24% á milli ára í maí síðastliðnum, en sé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins hefur þeim fjölgað um 31%.