© AFP (AFP)
Heildarvelta allra atvinnugreina í mars og apríl nam rúmum 454 milljörðum króna sem er 5,5 milljörðum meiri velta en á sama tíma fyrir ári. Þar af var velta matvæla- og drykkjavöruiðnar og tóbaksiðnar tæplega 53 milljarðar króna sem er 3,8 milljörðum minni velta en á fyrra ári. Velta fiskveiða og fiskeldis var tæplega 20 milljarðar króna sem er 16 milljónum minni velta en í mars og apríl 2010. Velta á framleiðslu málma nam rúmum 46 milljörðum króna og er aukning milli ára að fjárhæð 4,1 milljarða króna. Hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum var veltan tæplega 21,5 milljarðar króna og lækkar um rúmlega 900 milljónir milli ára. Í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð nam veltan rúmum 16 milljörðum króna em er rúmlega 1,5 milljarða lækkun frá fyrra ári. Þá var velta af flutningum með flugi rúmir 18 milljarðar króna sem aukning um 2,8 milljarða milli ára. Velta heildverslana sem ekki selja vélknúin ökutæki nam tæplega 105 milljörðum króna sem er hækkun upp á 1,9 milljarða milli ára af því er fram kemur í tölum Hagstofu Íslands.

Veltan nær til allrar skattskyldrar veltu og veltu sem er undanþegin virðisaukaskatts, þ.e. útflutningur á virðisaukaskattskyldri vöru og þjónustu. Velta vegna starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatts (heilbrigðisþjónusta, menntun, þjónusta banka, vátryggingar, fólksflutningar o.fl.) er ekki meðtalin. Veltan nær til allrar sölu á virðisaukaskattsskyldri vöru og þjónustu hvort sem er til endanlegra notenda eða til endursölu. Þetta getur þýtt tví- eða margtalningu sömu vöru að því marki sem hún gengur kaupum og sölu milli fyrirtækja eða vinnslustiga.