Um 6.200 kaupsamningum var þinglýst árið 2008 og námu heildarviðskipti með fasteignir um 180 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tölum frá Fasteignamati ríkisins (FMR) en meðalupphæð á hvern kaupsamning á þessu ári var um 29 milljónir króna.

Árið 2007 var veltan 406 milljarðar króna, fjöldi kaupsamninga tæplega 15.300 og meðalupphæð á hvern kaupsamning 26,7 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því minnkað um tæplega 55% á milli ára og kaupsamningum fækkað um tæplega 60%.

Í gögnum FMR kemur fram að sé litið til höfuðborgarsvæðisins stefnir heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga í um 115 milljarða króna, fjöldi kaupsamninga verði um 3.500 og meðalupphæð kaupsamnings verði tæpar 33 milljónir króna.

Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2007 var rúmlega 310 milljarðar króna og kaupsamningar rúmlega 10.000. Meðalupphæð samninga árið 2007 var um 31 milljón króna.

Hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsins alls hafa kaupsamningar ekki verið færri frá árinu 1993.