Heildarvelta á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst um 3,6% á milli mánaða, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins, og nam 20,7 milljörðum króna í nóvember.

?Nokkur þróttur virðist enn vera í húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Greina má aukningu í veltu þrátt fyrir að kaupsamningum hafi fækkað um rúm 6% frá fyrra mánuði, en þinglýstir samningar voru 735 í nóvember.

?Meðalupphæð hvers samnings var því rúmar 28 milljónir króna, sem er 60% hækkun frá sama tíma í fyrra. Á milli október og nóvember var aukningin 10,4% sem er mjög mikið og skýrist af stórum hluta af því að sérbýli og atvinnuhúsnæði vóg þungt í viðskiptum nóvembermánaðar," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Meðalupphæð þinglýstra samninga í fjölbýli var 22,2 milljónir króna, sem er 50% hækkun milli ára. Að baki voru 532 samningar og var heildarvelta vegna þeirra tæplega 12 milljarðar króna. Í sérbýli nam meðalupphæð samninga 41,8 milljónum, þinglýstir samningar voru 103 og heildarvelta 4,3 milljarðar.

?Mun meiri samdráttur varð í fjölda samninga milli ára í fjölbýli (-44%) en sérbýli (-26%) og skýrir það hvers vegna hækkun á meðalupphæð þinglýstra samninga er meiri yfir heildina en í bæði sérbýli og fjölbýli, auk þess sem annað húsnæði en íbúðarhúsnæði telst með í heildartölum, en þar hefur meðalhækkun samninga raunar verið nokkuð minni en í íbúðarhúsnæði, eða 27% milli ára," segir greinigardeildin.

Í fyrstu viku desembermánaðar var heildarfjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæði 141 og meðalupphæð á kaupsamning tæpar 25 milljónir.

?Er það nokkuð undir meðaltali síðustu 12 vikna en breyting milli vikna hefur verið töluverð undanfarið svo ekki er hægt að draga neinar ályktanir um þróun enn sem komið er. Auk þess virðist húsnæði annars staðar á landinu hækka hraðar en á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir, og enn er því óvíst hvort sér fyrir endann á þeirri hækkun húsnæðisverðs sem drifið hefur verðbólgu síðasta árið," segir greiningardeild Íslandsbanka.