Heildarvelta kreditkorta dróst saman um tæp 6% í desember miðað við mánuðinn á undan og var 20,5 milljarðar króna.

Meðalvelta kreditkorta á 12 mánaða tímabili (des 2007 til nov 2008) var 26,3 milljarðar króna og í desembermánuði 2007 nam kreditkortavelta 24,9 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabanka Íslands en þess ber að gæta að tölur hvers mánaðar er sú kreditkortaskuld sem útistandandi er í lok mánaðar og tilheyrir úttektartímabilinu sem lauk í mánuðinum.

Þannig mun jólaverslunin sem fram fór eftir upphaf nýs kreditkortatímabils í desember (fast tímabil hófst 18. desember en breytilegt tímabil 6. desember) vera innifalin í janúartölum sem birtar verða í febrúar.

Debetkortavelta er hins vegar velta almanaksmánaðarins, í desember var hún 38,5 milljarðar króna eða 6,8 milljörðum meiri en í nóvembermánuði. Meðalvelta debetkorta síðustu 12 mánuði (des 2007 til nov 2008) var 34,8 milljarðar króna og í desember 2007 var debetkortavelta 42,2 milljarðar króna.