Heildarvelta kreditkorta í janúarmánuði var 24,5 milljarðar króna samanborið við 28,7 milljarða á sama tíma í fyrra og er þetta 15% samdráttur milli ára.

Heildarvelta kreditkorta jókst um 20% í janúar miðað við mánuðinn á undan.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en rétt er að benda á að kreditkortatölur hvers mánaðar er sú kreditkortaskuld sem útistandandi er í lok mánaðar og tilheyrir úttektartímabilinu sem lauk í mánuðinum.

Þannig er jólaverslun sem fram fór eftir upphaf nýs kreditkortatímabils í desember (fast tímabil hófst 18. desember en breytilegt tímabil 6. desember) innifalin í janúartölum.

Debetkortavelta er velta almanaksmánaðarins og var í janúar 29,3 milljarðar króna og dróst saman um 24% frá fyrri mánuði. Samanborið við sama tíma í fyrra jókst heildardebetkortaveltan í janúar um 2,6 milljarða króna milli ára.