Heildarviðskipti með skuldabréf námu tæpum 328 milljörðum í júlí sem svarar til 14,2 milljarða veltu á dag.

Í mánuðinum þar á undan nam veltan að meðaltali 13,7 milljörðum á dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöll Íslands.

Þar segir að heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa hafi numið rúmum 1.310 milljörðum í júlí og því lækkað um 2,9% milli mánaða.

„Mest voru viðskipti með lengsta flokk ríkisbréfa,RIKB 19 0226 54,3 milljarðar og þá með RIKB 13 0517 41,4 milljarðar," segir í tilkynningunni.

„Alls námu viðskipti með ríkisbréf 198 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 122 milljörðum," segir enn fremur í tilkynningunni og er þar verið að vísa til júlímánaðar.