Heildartekjur ríkissjóðs námu 280.696 milljörðum króna á liðnu ár sem er liðlega 21 milljarða króna eða 8,1% hækkun frá árinu á undan. Þetta er liðlega 1,3 milljörðum króna meiri innheimta en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2004.

Skatttekjur ríkissjóðs námu þar af um 260,7 milljörðum króna og hækkuðu um 13,1% frá fyrra ári sem er 3,1 milljarði króna meiri innheimta en áætlanir gerðu ráð fyrir. Til samanburðar má nefna að almennt verðlag hækkaði um 3,2% á tímabilinu þannig að skatttekjur hækkuðu að raungildi um 9,6%.

Innheimta skatttekna á tekjur og hagnað hækkuðu um 10,7% frá fyrra ári. Þar af skiluðu tekjuskattar einstaklinga um 6,7 milljörðum krónum meira en árið 2003, sem er 12% aukning og tekjuskattar lögaðila skiluðu 0,8 milljarði króna meira en í fyrra, sem er 8,3% aukning. Innheimta tryggingagjalda jókst um 11,1% á milli ára en til samanburðar má nefna að launavísitala Hagstofu Íslands hækkaði um 4,7% á sama tímabili. Tekjur af eignarskatti hækkuðu einnig frá fyrra ári, eða um 38,8% sem jafngildir 34,5% raunhækkun. Þar munar mestu um aukningu í innheimtu stimpilgjalda en þau hafa aukist um 73,6% á milli ára enda urðu miklar breytingar á íbúðarlánamarkaði á síðastliðnu ári sem leiddi til þess að fasteignaviðskipti og endurfjármögnun húsnæðislána jukust til muna. Innheimta veltuskatta ríkissjóðs jókst um 13,4% frá 2003 eða um 9,9% að raungildi. Þar af vegur 13,5% aukin innheimta virðisaukaskatts þyngst en aðrir óbeinir skattar jukust um 13,1%. Þess má geta að töluverð aukning var í innheimtu vörugjalda af ökutækjum, eða um 37,4% en hana má fyrst og fremst rekja til aukningu í innflutningi bifreiða.

Gjöld. Útgreiðslur ríkissjóðs námu 280 milljörðum króna á árinu 2004. Það er hækkun um tæpa 12 milljarða frá fyrra ári, eða 4,3%. Hækkunin kemur nær alfarið fram í félagsmálum, sem hækka um 11 milljarða. Greiðslur til þess málaflokks nema tæpum ⅔ af heildarútgreiðslum ríkissjóðs. Þannig hækka greiðslur til almannatrygginga um 3,8 milljarða, til heilbrigðismála um 3,2 milljarða og til fræðslumála um 1,9 milljarða króna. Hjá atvinnumálum munar mestu um 2 milljarða hækkun til samgöngumála. Á móti vega lækkanir til ákveðinna málaflokka og munar þar langmestu um 1,9 milljarða lægri vaxtagreiðslur heldur en árið 2003. Aðrar breytingar milli ára vega minna. Greiðslurnar eru í heild tæpum 8 milljörðum innan marka fjárheimilda og munar þar mestu um ónýttar inneignir til samgöngumála.

Lánahreyfingar. Lántökur námu 25,9 milljörðum króna, en afborganir voru 32,5 milljarðar. Auk þess voru greiddir 7,5 milljarðar til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. Handbært fé jókst um 8,3 milljarða á árinu.