Heildsalan Core ehf., sem meðal annars flytur inn koffín- og orkudrykkina Nocco, hagnaðist um 363 milljónir króna á árinu 2020 sem er langbesta afkoma í sögu félagsins og samsvarar um einni milljón króna á dag.

Vöxtur félagsins hefur verið umtalsverður frá því að Nocco sló í gegn hér á landi árið 2017. Velta Core nær fimmfaldaðist á milli áranna 2016 og 2019 og fór úr 440 milljónum króna í ríflega tvo milljarða króna. Þá jókst hagnaður félagsins á sama tímabili úr 23 milljónum króna í 220 milljónir króna.

Afkoman batnaði svo enn frekar á árinu 2020 samkvæmt nýsamþykktum ársreikningi félagsins hjá fyrirtækjaskrá. Rekstrarhagnaður fór úr 270 milljónum króna árið 2019 í 459 milljónir króna árið 2020. Veltan var þó svo til óbreytt milli ára og nam ríflega tveimur milljörðum króna.

Hins vegar lækkuðu rekstrargjöld úr 1.752 milljónum í 1.574 milljónir króna en munaði þar mestu að kostnaðarverð keyptra seldra vara lækkaði úr 1.453 milljónum í 1.219 miljónir króna. Stöðugildum hjá Core fjölgaði úr 17 í 20 á milli áranna 2019 og 2020 og launakostnaður hækkaði úr 152 milljónum króna í 174 milljónir króna.

Tók tíma að hefja sig til flugs

Core var stofnað árið 1999 og er í eigu hjónanna Ársæls Þórs Bjarnasonar og Kamillu Sveinsdóttur.  Ársæll, sem er framkvæmdastjóri Core, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2018 að það hefði tekið tíma að byggja upp reksturinn. „Svona heilt yfir, þegar maður lítur aftur, þá hefur gengið á ýmsu. Við höfum stundum farið í gegnum öldudali en samt alltaf náð að halda okkar striki. Okkur hefur yfirleitt gengið vel að koma okkar vörum í verslanir og raun sífellt betur eftir því sem árin hafa liðið," sagði Ársæll.

Core greiddi út 300 milljónir í arð árið 2020, 80 milljónir 2019 og 40 milljónir árið 2018. Lagt var til í skýrslu stjórnar í ársreikningi ársins 2020 að 180 milljónir króna yrðu greiddar út á árinu 2021.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Jón Ólafsson ræðir horfurnar hjá Icelandic Glacial en sala fyrirtækisins hefur aukist umtalsvert að undanförnu.
  • Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, ræðir breyttar áherslur í rekstri félagsins.
  • Fjallað um breyttar forsendur með tilkomu ómíkrón-afbrigðis kórónuveirunnar og helstu álitamál sem hafa risið.
  • Farið er yfir mikinn vöxt Annata síðustu tvö ár og framtíðaráform félagsins.
  • Framkvæmdastjóri Ankeri Solutions segir að fyrirtækið sé að skipta um gír eftir að það lauk fjármögnun í haust.
  • Rætt er við Björn Þorláksson, nýjan framkvæmdastjóra Húrra Reykjavík.
  • Fjallað um nýútkomna skýrslu vefritsins Northstack um fjárfestingar í sprotum árið 2021.
  • Týr fjallar um eftirlitsstofnanir.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað sem og Óðinn sem fjallar um stærsta fasteignafélag landsins, ríkissjóð.