Heildsalan Core ehf., sem flytur inn heilsuvörur líkt og Nocco drykkina vinsælu og Froosh, hagnaðist um ríflega 221 milljón króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 28 milljónir frá fyrra ári.

Velta heildsölunnar nam rúmlega 2 milljörðum króna en árið áður nam veltan tæplega 1,8 milljörðum króna. Rekstrargjöld námu tæplega 1,8 milljörðum króna. Eignir námu 801 milljón króna um síðustu áramót og eigið fé 445 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall var því 56%. Laun og launatengd gjöld námu 152 milljónum króna en á síðasta ári störfuðu að jafnaði 27 starfsmenn hjá fyrirtækinu.

Fyrirtækið greiddi 80 milljóna króna arð til eigenda sinna í fyrra vegna rekstrarársins 2018. Core er í eigu hjónanna Ársæls Þórs Bjarnasonar og Kamillu Sveinsdóttur, en þau eiga hvort um sig helmingshlut í heildversluninni.