Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum, sem nefndin verðleggur, breytist ekki nú um áramótin. Þetta þýðir að verð til neytenda er óbreytt 3. árið í röð. Hins vegar hækkar verð til bænda um 3,4% sem er í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs. Fulltrúar mjólkuriðnaðarins hafa lýst því yfir að ekki komi til verðbreytingar á öðrum mjólkurvörum að svo stöddu.

"Síðustu almennu kostnaðarhækkanir sem settar voru í mjólkurverð til neytenda eru frá október 2002. Á fundinum kom fram að miðað við þróun almenns verðlags og áætlun fyrir 2005 má ætla að þessi ákvörðun þýði um 500 milljón króna lægri útgjöld fyrir íslenska neytendur á árinu 2005. Með sama hætti má áætla að útgjöld hafi verið 350 milljónum króna lægri á árinu 2004, eða um það bil 850 milljónir á tímabilinu 2004-2005," segir í frétt á vef Landssambans kúabænda.