Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum, sem nefndin verðleggur, hækki 1. apríl n.k. um 14,6%.

Frá sama tíma hækkar afurðastöðvaverð til bænda um rúmar 14 kr. á lítra mjólkur. Þá hækkar vinnslu- og dreifingarkostnaðar mjólkur um kr. 2,20  á hvern lítra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verðlagsnefnd búvara

„Við þessa breytingu má gera ráð fyrir að einn lítri af nýmjólk hækki úr 87 kr. í tæpar 100 kr., en smásöluálagning á mjólk er frjáls,“ segir í tilkynningunni.

„Ástæður þessara verðhækkana eru einkum hækkun áburðarverðs, kjarnfóðurs  og fjármagnsliða í verðlagsgrundvelli kúabús.

Fulltrúi ASÍ sat hjá við atkvæðagreiðslu þar sem hann gat ekki staðið að hækkun á vaxtalið grundvallarins, en var tilbúinn til að standa að ákvörðun um hækkun á búvörum þar sem tekið væri tillit til kostnaðarhækkana eins og kjarnfóðri og áburði,“ segir í tilkynningunni.