Dr. Frank Soltis, aðalhönnuður IBM POWER örgjörvans sem meðal annars er notaður í PlayStation 3 og Xbox 360 leikjavélunum er væntanlegur hingað til lands á IBM Power ráðstefnu Nýherja og Skyggnis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja en þar segir að hönnun Soltis hafi markað tímamót í þróun örgjörva á sínum tíma og var lausnin hans meðal annars notuð í ofurtölvuna Deep Blue frá IBM sem háði frægt skákeinvígi við rússneska stórmeistarann Garry Kasparov.

Eftirfarandi er hér birt óbreytt úr tilkynningu Nýherja fyrir áhugasama:

Dr. Soltis vann um árabil hjá IBM sem aðalhönnuður 64 bita IBM POWER örgjörvans. Hann var jafnframt höfundur að IBM i stýrikerfinu og AS/400 vélbúnaði sem er notaður í tölvurekstri fyrirtækja. IBM POWER örgjörvinn er einn öflugasti tölvuörgjörvinn á markaðnum í dag. Hann keyrir lausnir í viðskiptalífinu ásamt því að stjórna ýmsum tækjum sem eru hluti af okkar daglega lífi svo sem bifreiðum, rafmagnstækjum og leikjatölvum. Má þar nefna PlayStation 3 og Xbox 360 leikjavélarnar, AEG heimilistæki og Ford bifreiðar.

Þá var einnig frægt þegar Deep Blue ofurtölva IBM, sem keyrir IBM POWER örgjörva, háði einvígi við Garry Kasparov, fyrrverandi heimsmeistara í skák árin 1996 og 1997. Kasparov vann fyrra einvígið 4-2 en Deep Blue vann það síðara 3½–2½. IBM POWER örgjörvi er notaður í mörgum af stærstu ofurtölvum heimsins í dag.

Dr. Soltis er vinsæll og þekktur fyrirlesari á alþjóðlegum tölvuráðstefnum þar sem hann ræðir um framtíðarsýn í upplýsingatækni. Hann mun á IBM Power ráðstefnu Nýherja og Skyggnis, sem fram fer í Eldborg í Bláa lóninu 24. september, meðal annars fjalla um spennandi nýjungar í sjöundu kynslóð POWER örgjörvans frá IBM sem er á næsta leyti.

Nánari upplýsingar á www.nyherji.is .