Eva Hrönn Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur fært sig um set og starfar nú hjá Íslensku lögfræðistofunni en áður hafði hún starfað í átta ár hjá OPUS lögmönnum.

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að færa mig var sú að mér bauðst þetta tækifæri og fannst það spennandi. Bæði leist mér mjög vel á fólkið sem starfar á Íslensku lögfræðistofunni og það var kominn tími til að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Eva.

Eva Hrönn er mikil tungumálamanneskja en hún fór meðal annars í skiptinám til Japans þegar hún var í meistaranáminu í lögfræði. Þar lærði hún örlitla japönsku og heillaðist af henni. Einnig bjó hún í Torino á Ítalíu á meðan eiginmaður hennar var í námi og lagði þar stund á ítölsku.

Helsta áhugamál Evu Hrannar utan vinnu er aðallega að verja tíma með fjölskyldunni. Mikill tími fer einnig í félagsstörf sem tengjast leikskólanum og skólanum hjá börnunum. Eva situr í stjórn foreldrafélags í Leikskólanum Sjálandi og Sjá- landsskóla og segir að sér finnist mjög mikilvægt að taka virkan þátt í starfi barna sinna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .