*

mánudagur, 20. janúar 2020
Fólk 27. ágúst 2017 19:04

Heillandi og spennandi umhverfi

Heimir Þorsteinsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra á fjármálasviði Alvogen.

Ástgeir Ólafsson
Eva Björk Ægisdóttir

Heimir Þorsteinsson hefur yfirgripsmikla reynslu af fjármálasviðum alþjóðlegra lyfjafyrirtækja eftir að hafa starfað hjá Actavis í yfir 10 ár. Þar áður starfaði hann í 11 ár við endurskoðun og reikningshald hjá Deloitte og var meðal annars einn af eigendum og áhættustjóri fyrirtækisins. Hann hefur nú gengið til liðs við Alvogen þar sem hann tekur við starfi framkvæmdastjóra á fjármálasviði fyrirtækisins.

„Ég kem inn á fjármálasviðið til að aðstoða við ýmis verkefni tengd uppgjörsferlum, innra eftirliti og fleira. Við erum að vinna í að skilgreina verkefnin, en ég mun vinna náið með fjármálastjóra Alvogensamstæðunnar, Kevin Bain. Þar sem Alvogen er alþjóðlegt fyrirtæki þá eru nokkrir framkvæmdastjórar innan deildarinnar. Mitt starf felst í raun í að vinna þvert á hinar deildirnar. Ég mun geta nýtt mína reynslu frá Actavis við að sinna þessum verkefnum,“ segir Heimir sem er langt frá því að vera nýgræðingur í lyfjageiranum.

„Ég er búinn að vera lengi hjá Actavis en eftir að Teva keypti fyrirtækið urðu töluverðar breytingar á mínu starfi og var það flutt til Ísrael. Varð það til þess að ég ákvað að leita á ný mið. Alvogen er mjög spennandi og upprennandi fyrirtæki og minnir mig svolítið á Actavis áður en það var keypt af bandaríska lyfjarisanum Watson. Hér er mikill hraði og gaman að vinna. Auk þess er gaman að starfa í þessu alþjóðlega umhverfi. Það heillar að starfa fyrir fyrirtæki sem er að byggja upp starfsemi sína og þróa nýjar vörur.“

Heimir er menntaður viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi. Spurður hvað hafi orðið til þess að hann valdi viðskiptafræði segir hann: „Eftir að ég kláraði menntaskóla var ég að vandræðast með hvað ég vildi læra en var orðinn ákveðinn á því að fara í lögfræði. Svo fór ég að vinna á sumrin í lánadeild Landsbankans og þá einhvern veginn opnaðist fyrir mér þessi viðskiptatengdi heimur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Watson Actavis Alvogen Heimir Þorsteinsson Teva