Stjórnmálaskýrendur virðast almennt sammála um að Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikana í næstu forsetakosningum, hafi spillt fyrir sjálfum sér með klaufalegum og niðrandi ummælum um stuðningsmenn Baracks Obama forseta. Ummælin féllu í fjáröflunarboði í Flórída með auðugum stuðningsmönnum Romneys fyrir skemmstu. Ummæli Romneys náðust á myndband.

Í boðinu sagði Romney í stuttu máli tæpan helming stuðningsmanna Obama bótaþega, sem greiði ekki tekjuskatt og líti á sig sem fórnarlömb. Þetta fólk taki ekki ábyrgð á eigin lífi og telji ríkið eiga að sjá um það. Bent er á það í netgrein bandaríska dagblaðsins New York Times í dag, að um helmingur Bandaríkjamanna greiði ekki tekjuskatt vegna þess að tekjur fólksins eru of lágar.

Í umfjöllun vikuritsins Time af málinu er rifjað upp að Romney hafi fram til þessa verið heppinn áður en hann var útnefndur forsetaefni flokksins. Það skýrist ekki síst af mótherjunum, Tim Pawlenty, Herman Cain og Newt Gingrich, sem hafi meira og minna eyðilagt fyrir sjálfum sér. Þá hafi hann sömuleiðis grætt á því að sá efnahagsbati sem Barack Obama hefur lofað hafi ekki orðið að veruleika.

Myndbandið má sjá hér