*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 30. júní 2021 19:35

Heilsunasl sækir á erlenda markaði

Næra, heilsunasl íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Responsible Foods, vann nýlega til verðlauna í alþjóðlegri samkeppni.

Sveinn Ólafur Melsted
Skyrnaslið Næra bar sigur úr býtum í flokki bestu naslvara úr mjólkurafurðum í World Dairy Innovation Awards samkeppninni.
Cat Gundry-Beck

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Responsible Foods, sem framleiðir heilsunaslið Næra, vann nýlega til verðlauna í alþjóðlegu samkeppninni World Dairy Innovation Awards. Keppti fyrirtækið í þremur flokkum og mætti þar m.a. vörum frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem framleiða afurðir úr mjólkurvörum.

Fyrirtækið vann fyrstu verðlaun í flokki bestu próteinvara úr mjólkurafurðum. Varan sem hreppti efsta sætið heitir Næra - prótein ostanasl. Dr. Holly T. Kristinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Responsible Foods, segir að umrætt nasl sé með yfir 70% prótein og sé bæði fitulítið, kolvetna-snautt og með stökka áferð sem minni á kartöfluflögur. Varan hafi fengið frábærar viðtökur neytenda bæði hérlendis og erlendis og eigi sér engan samanburð.

Þá hreppti fyrirtækið annað sæti í flokki bestu naslvara úr mjólkurafurðum, fyrir Næra skyrnaslið. „Næra skyrnaslið er fyrsta naslið sem hefur verið þróað úr skyri og opnar það á nýja markaði og neytendur fyrir íslenskt skyr. Naslið er framleitt úr fersku íslensku skyri, er próteinríkt, með afar langt geymsluþol og er fáanlegt í mismunandi bragðtegundum," segir Holly. Auk þess var fyrirtækið á meðal þeirra sem komust í úrslit í flokki bestu nýrra fyrirtækja og vörumerkja.

Sækja á erlenda markaði

Responsible Foods var stofnað árið 2019 af Holly, en hún og eiginmaður hennar dr. Hörður G. Kristinsson reka fyrirtækið saman. Þau hafa bæði doktorsgráðu í matvælavísindum. Fyrir-tækið setti sína fyrstu vinnslu í gang haustið 2020 úti á Granda í Reykjavík og þar fer þróun og framleiðsla osta og skyrnaslsins fram, úr íslenskum hráefnum.

„Við erum að nýta íslenskan ost og aðrar mjólkurvörur á alveg nýjan hátt. Þessi árangur okkar í samkeppninni hefur mikið að segja fyrir fyrirtækið. Við sóttum um þátttöku í þremur flokkum og komumst í úrslit í öllum þeirra. Það eru einungis tvö ár frá því að fyrirtækið var stofnað og því höfum við sem nýsköpunarfyrirtæki náð langt á skömmum tíma," segir Holly.

Holly segir félagið stefna á að hefja sölu á vörum sínum á mörkuðum víða um heim áður en langt um líður. „Við höfum þegar hafið sölu á vörunum okkar í Bandaríkjunum og eru þær einnig fáanlegar í helstu matvöruverslunum hér á Íslandi. Norður-Ameríka er stærsti markaðurinn fyrir nasl, og þá sérstaklega heilsusamlegt nasl, og því leggjum við mesta áherslu á þann markað til að byrja með. En við stefnum einnig á að komast inn á markaði í Evrópu og Asíu," segir hún og bætir við að í upphafi muni félagið leggja mesta áherslu á sölu í gegnum netið.

Responsible Foods vinnur einnig hörðum höndum að því þessa dagana að setja upp aðra matvælavinnslu. Sú vinnsla verður á Fáskrúðsfirði og mun þróa og framleiða nýtt nasl úr mismunandi sjávarfangi. 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðuna á flugmarkaði og hlutafjárútboð Play.
  • Fjallað um aðdraganda sölunnar á Borgun og önnur tilboð sem bárust í félagið.
  • Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ræðir stöðu efnahagsmála.
  • Rútufyrirtækið Allrahanda hefur lagt fram drög að nauðasamningsfrumvarpi.
  • Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir vindtúrbínur sérsniðnar að öfgafullu veðurfari á norðurslóðum, er í hröðum vexti.
  • Nýr framkvæmdastjóri Rannsóknarseturs verslunarinnar er tekinn tali.
  • Huginn og muninn verða á sínum stað auk Týs.
  • Farið er yfir hrávöruverðshækkanir síðustu missera.