Í vikunni hafa verið gerðar tilraunir með svokallaðan heilsupassa sem geti sýnt með QR kóða í símum fram á að viðkomandi ferðalangur hafi undirgengist kórónuveirupróf á flugi milli London, New York, Hong Kong og Singapúr.

Um er að ræða svokallaðann CommonPass Framework sem Commons verkefnið í Sviss og Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, standa að til að tryggja öruggari ferðalög milli landa á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fulltrúar stjórnvalda í 37 löndum um allan heim sem og einkaaðilar koma að verkefninu.

Með heilsupassanum geta ferðamenn sýnt fram á niðurstöður prófana á því hvort viðkomandi sé með Covid 19 sjúkdóminn, sem dreifst hefur um heiminn frá upprunaborginni Wuhan í Kína síðustu mánuði og valdið dauðsföllum og efnahagslegum skaða eins og alþekkt er, á stöðluðu viðurkenndu formi.

Hingað til hefur þurft að prenta út niðurstöður prófana, oft á torkennilegum tungumálum fyrir flugvallarstarfsmenn og landamæaraverði annarra landa, og oft er ekki hægt að tryggja að prófanirnar séu gerðar í viðurkenndum rannsóknarstöðvum.

Opnar á að ekki þurfi algert bann eða sóttkví fyrir alla

Með heilsupassanum í farsímum viðkomandi verður hægt að staðfesta að ferðalangurinn hafi uppfyllt skilyrði um aðgang inn í viðkomandi ríki, með QR kóða sem hægt verði að skanna beint úr síma viðkomandi.

Dr. Bradley Perkins, aðallæknir The Commons verkefnsisins, segir að með traustum heilbrigðisgögnum geti þjóðir verið með sértækari lausnir en algert bann eða algildar sóttkvíarreglur fyrir því að hleypa fólki inn fyrir landamærin.

„Án getunnar til að treysta Covid-19 prófum - og loks bólusetningarvottorðum - yfir alþjóðleg landamæri, mun mörgum ríkjum áfram vera þörf á því að hafa annað hvort algild ferðabönn eða skilyrta sóttkví eins lengi og á heimsfaraldrinum stendur,“ hefur Independent eftir lækninum.

Ætlunin er að prófa notkun heilsupassans hjá flugfélögunum Cathay Pacific Airways og United Airlines á flugleiðum á milli London, New York, Hong Kong og Singapúr. Munu sjálfboðaliðum meðal farþega United Airlines verða kleyft að nota heilsupassann í flugi félagsins milli Heathrow flugvallar í Lundúnum og Newark Liberty alþjóðaflugvallarins.

Í kjölfarið er stefnt að því að koma heilsupassanum í notkun hjá öðrum flugfélögum og á þekktum millilandaleiðum í Asíu, Afríku, Ameríku, Evrópu og Miðausturlöndum.