*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 25. október 2020 13:09

„Heilsurækt er hluti af lausninni“

Sóttvarnaaðgerðir setja „risastórt strik í reikninginn“ hjá líkamsræktarstöðvum en rekstur stærstu stöðvanna gekk vel á síðasta ári.

Alexander Giess
Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Haraldur Guðjónsson

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, segir reksturinn standa sterkum fótum þrátt fyrir að sóttvarnaaðgerðir setji „risastórt strik í reikninginn“. Félagið hafi lagt áherslu á að gera líkamsræktariðkun eins aðgengilega og hægt er á tímum eins og þessum, meðal annars með daglegu streymi fyrir sína viðskiptavini. 

„Að mínu mati er mjög alvarlegt að loka dyrunum á líkamsræktarstöðvar þrátt fyrir að ég skilji sjónarmið sóttvarnayfirvalda. Við megum bara ekki gleyma því að heilsurækt er hluti af lausninni til þess að geta tekist á við þennan faraldur, sem og aðra sjúkdóma,“ segir Ágústa.

Samanlögð afkoma stærstu líkamsræktarstöðva á Íslandi; World Class, Hreyfingar, Reebok Fitness, Sporthússins auk CrossFit Reykjavíkur nam 721 milljón króna á síðasta ári. Á árinu 2018 nam afkoman 665 milljónum og jókst um ríflega átta prósent milli ára.

Gert að loka að lágmarki í tvo og hálfan mánuð

Í liðinni viku var líkamsræktarstöðvum leyft að opna á ný, þó með takmörkunum. Stöðvar höfðu verið lokaðar í tvær vikur og er ekki útilokað að þeim verði gert að loka á ný, en ætla má að það ráðist af framþróun veirufaraldursins. Áskriftarkort iðkenda hafa alla jafna verið fryst meðan á aðgerðum stendur og reksturinn því tekjulaus.

Líkamsræktarstöðvar voru lokaðar í tvo mánuði í fyrstu bylgju faraldursins. Sumar stöðvar, þar á meðal CrossFit Reykjavík, ákváðu að bjóða viðskiptavinum sínum að leigja búnað sinn tímabundið og gátu með því tryggt sér einhverjar tekjur.

Hartnær tuttugu stöðvar

Um tíu ár eru síðan CrossFit Reykjavík, stærsta CrossFit stöðin á Íslandi, var stofnuð en á síðasta ári voru rekstrartekjur stöðvarinnar 250 milljónir króna og hagnaðist hún um 35 milljónir. Af áðurnefndum félögum hefur arðsemi eigin fjár verið mest hjá CrossFit Reykjavík á síðustu tveimur árum eða 92% að jafnaði. Næstmest var arðsemi eigin fjár hjá World Class eða 41% að meðaltali. Rekstrartekjur Granda 101 námu 126 milljónum á síðasta ári.

Alls eru fjórtán skráðar CrossFit stöðvar á Íslandi, samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins. Þar af eru fimm stöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þrjár á Suðurnesjum og þrjár á Suðurlandi. Þar eru ekki meðtaldar Grandi 101, WorldFit né aðrar stöðvar sem veita sambærilega þjónustu en ekki eru skráðar undir vörumerki CrossFit.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.