Heilsuréttir Hagkaups eftir Sólveigu Eiríksdóttur, betur þekktri sem Sollu á Grænum kosti, var enn í efsta sæti á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir dagana 26. febrúar til 10. mars sl. Bókin hefur verið í efsta sæti listans frá áramótum og er þar með mest selda bókin það sem af er þessu ári.

Í öðru sæti var bókin Léttir eftir Jónínu Leósdóttur, fyrrv. ritstjóra, en bókin kom út í byrjun mars.

Þá var spennusagan Svartur á leik eftir Stefán Mána í þriðja sæti en hún var í öðru sæti vikuna á undan. Rétt er að geta þess að bókin kom upphaflega út árið 2004 en var nú nýlega endurprentuð í kilju í kjölfar þess að kvikmynd eftir bókinni var frumsýnd hér á landi í byrjun mars.

Þá koma nýjar bækur inn á topp tíu listann í fjórða og fimmta sæti, Veiðimennirnir eftir Jussi Adler-Olsen í því fjórða og Konurnar á ströndinni eftir Tove Alsterdal í fimmta sæti.

Í sjötta sæti er síðan kunnuleg bók, Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson en hún er jafnframt næst mest selda bókin frá áramótum. Gamlinginn var mest selda bókin lengi vel á síðasta ári eða þangað til að Einvígið eftir Arnald Indriðason og Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur komu út í byrjun nóvember.

Tvær síðarnefndu bækurnar eru nú báðar komnar út af topp tíu viku listanum en eru þó á topp tíu listanum yfir mest seldu bækurnar það sem af er þessu ári, Einvígið í sjöunda sæti og Brakið í áttunda sæti.