Við erum þróunarfyrirtæki, erum búin að starfa í tæp fimm ár og höfum verið uppi á Ásbrú í Keflavík. Markmiðið hjá okkur er að fara í framleiðslu á heilsusalti sem er lágnatríumsalt. Þetta salt hefur sérstaka eiginleika, það er ekki nema 40% natríumsalt í því og það er unnið eingöngu úr sjó og inniheldur þar af leiðandi öll snefilefni sjávarins sem eru í sambærilegum vörum á markaði,“ segir Egill Þórir Einarsson, framkvæmdastjóri Arctic Sea Minerals.

Félagið hefur fengið 45 milljóna styrk úr tækniþróunarsjóði og 10 milljóna fjárfestingu frá eignarhaldsfélagi Suðurnesja til þess að ljúka þróun og koma vörunni á markað. „Við vinnum þetta með aðferð sem við höfum þróað sjálfir og höfum einkaleyfi á. Þetta er í raun og veru okkar aðalvara. Við erum ekki komnir í framleiðslu en höfum verið í tilraunaframleiðslu,“ segir Egill en ef allt gengur vel stefnir Arctic Sea Minerals á að hefja sölu síðar á árinu.

Fyrst og fremst er varan unnin úr sjó við strendur Reykjaness en auk þess er jarðsjór nýttur í framleiðsluna. „Hluti af hráefninu kemur svo úr jarðsjó sem er unninn við Reykjanesvirkjun. Þar er vökvi sem kemur upp og er nýttur til rafmagnsframleiðslu en síðan er saltur vökvi sem er afrennsli frá virkjuninni sem við nýtum,“ segir Egill.

Hvatt til minni saltnotkunar

Þá bætir hann við að víðast hvar á Vesturlöndum hafi heilbrigðisstofnanir hvatt til þess að dregið sé úr saltneyslu og þá einkum natríumneyslu en natríum er annað af tveimur meginefnum í hefðbundnu salti.

„Þetta er salt sem hefur mikið heilsufarslegt gildi. Það er lögð mikil áhersla á að reyna að draga úr saltnotkun, sérstaklega hjá háþrýstisjúklingum og þetta salt er svar við því. Vegna þess að þetta er vara sem þú getur notað í jafnmiklu magni og venjulegt salt án þess að fá nema hluta af þessu slæma efni sem er í því,“ segir Egill.

Bragðast eins og venjulegt salt

Egill segir að markhópurinn sé fyrst og fremst heilsuvörumarkaðurinn. Saltið inniheldur einnig 20% magnesíumsalt en magnesíum er efni sem hefur mikið verið tekið inn sem fæðubótarefni. „Við höfum meðal annars velt því fyrir okkur að selja þetta í íþróttadrykki. Þess vegna munum við væntanlega einblína á heilsuvörumarkaðinn. En þar að auki er hægt að nota þetta salt sem matarsalt í hvað sem er. Fyrir þá sem nota mikið salt þá er mjög hentugt að nota okkar vöru,“ segir hann  og tekur fram að vara Arctic Sea Minerals bragðist eins og hefðbundið salt þó hún sé unnin með öðrum hætti.

Stefna félagsins er á alþjóðlega grund.  „Við erum að hugsa fyrst og fremst um alþjóðlegan markað. Þetta er þannig vara að það er mjög auðvelt, teljum við, að koma henni á markað erlendis,“ segir Egill.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .