Viðskiptahugmyndin Heima vann Gulleggið 2020, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Lokahóf gulleggsins fór fram á netinu í ár þar sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tilkynnti sigurvegarann við hátíðlega "rafræna" athöfn föstudaginn 16. október.

Heima er smáforrit sem skiptir húsverkum og hugrænu byrðinni af heimilishaldi jafnt á milli sambýlinga. Sigurvegararnir fá að launum eina milljón króna. Í Heimateyminu eru Sigurlaug Jóhannsdóttir, Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Alma Dóra Ríkarðsdóttir. Hægt er að skoða hvernig lausnin kemur til með að líta út hér .

Í öðru sæti var Hemp Pack sem ætlar að framleiða lífplast sem brotnar alveg niður í náttúrunni með því að nýta iðnaðarhamp og örverur. Í Hemp Pack teyminu eru Robert Francis, Davíð Kristján Guðmundsson, Sean Michael Scully og Georgia Cruz.

Í þriðja sæti var Frosti sem framleiðir íslenskar, laktósafríar skyrflögur. Í teymi Frosta eru Guðrún Alfa Einarsdóttir og Aníta Þórunn Þráinsdóttir.

Verðlaunagrip Gulleggsins í ár hannaði Silvía Sif Ólafsdóttir. Verðlaunagripurinn í ár er borðfáni með egginu prentuðu á og usb-kubbi sem inniheldur eggið í þrívíðu, stafrænu formi. Hið stafræna egg er innblásið af þeim skrítnu tímum sem við lifum nú á og breytingunum sem þeir hafa haft í för með sér.

Um Gulleggið

Icelandic Startups stendur árlega fyrir Gullegginu en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd.

Í ár bárust um 170 hugmyndir í keppnina og á bak við þær stóðu um 300 manns. Keppnin hefur staðið yfir í tæpa tvo mánuði þar sem þátttakendur hafa sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda. Gulleggið fór fyrst fram árið 2008. Keppnin var fyrsti formlegi vettvangurinn til að þróa áfram hugmyndir sem spruttu upp innan háskólanna. Icelandic Startups sér um framkvæmd hennar.

Gulleggið er tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga. Fjölmörg starfandi fyrirtæki hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni og má þar m.a. nefna Meniga, Controlant, Clara, Karolina Fund, Videntifier, Solid Clouds o.fl.