Koma jólabjórsins í áfengisverslanir, bari og veitingastaði er löngu orðin fastur og mikilvægur liður í aðventunni og hjá mörgum má segja að jólatímabilið hefjist á þessum tímapunkti. Hrafnkell Freyr Magnússon rekur vefverslunina brew.is þar sem hann selur korn, humla, ger og annað sem þarf til bjórgerðar.

Hrafnkell segir að það sé ekki orðið of seint að brugga bjór fyrir jólin. „Það fer samt eftir því hvers konar bjór þú vilt brugga. Í huga margra bruggara er jólabjór dökkur, bragðsterkur og með háa áfengisprósentu. Þetta eru þyngri bjórar en vinsælustu jólabjórarnir í ríkinu. Þeir eru í raun aðeins dekkri útgáfur af venjulegum bjórum brugghúsanna, e.t.v. með karamellukeim. Fyrrnefndu bjórarnir þurfa langan tíma til að þroskast og eru menn gjarnan byrjaðir að hugsa um þá á sumrin. Vilji menn hins vegar prófa að brugga einfaldari jólabjór þá er það ekki orðið of seint.“

Hann tekur þó fram að hefja þurfi bruggun á næstu dögum, því annars sé hætt við því að bjórinn endi sem áramótabjór. „Ég hef bruggað jólabjór undanfarin ár, en ég gerði það ekki núna, því plássleysi hefur verið að plaga mig í aðdraganda verslunaropnunarinnar. Ég hef gert alls konar bjóra sem ég kalla jólabjóra, en er þó með nokkuð mótaða hugmynd um það hvað einkenna þurfi góðan jólabjór. Mér finnst að bjórinn þurfi að vera sterkur svo hann geti hlýjað manni á köldu vetrarkvöldi, hann þarf að vera frekar dökkur og nokkuð sætur og að í honum þurfa að vera jólakrydd eins og kanill og negull. Þetta er það sem mér þykir jólalegt, en, en smekkur manna er misjafn.“

Nánar er spjallað við Hranfkel í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .