Frá árinu 2008 til síðustu áramóta hefur þeim sem eru með símalínu í fastaneti fækkað um 20 þúsund samkvæmt tölum sem birtast í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar. Hefur hefðbundnum heimasímum fækkað sem því nemur og líklega er fækkunin umfangsmeiri á þessum fimm árum því fjöldi fólks er með netið í gegnum heimasíma í fastlínukerfinu en engan heimasíma.

„Þetta er sambærileg þróun og er að verða víða í Evrópu. Ég hugsa að Finnar séu komnir lengst því þar er tiltölulega lítill hluti markaðarins eftir með þessa fastanetsþjónustu,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, í samtali við Morgunblaðið í dag. Engu að síður sé enn meira en helmingur símnotenda með fastalínu. Þróunin hafi verið nokkuð stöðug fram til ársins 2008 en síðan þá hafi hún tekið beina línu niður á við. Hann segir við Morgunblaðið að margt benda til þess að yngra fólk sleppi því frekar að vera með heimasíma en það eldra, þó að ekki hafi verið gerð rannsókn á því á Íslandi.