Heimasmíði flugvéla hefur notið vaxandi vinsælda hér á landi eftir að samevrópskt regluverk um viðhald flugvéla (EASA) tók gildi á Íslandi. Áður en regluverkið tók gildi naut einkaflugmannsnám töluverðra vinsælda hér á landi og var því algengt að fólk keypti flugvél og flugskýli í sameiningu til einkanota. „Í dag er þetta allt saman mun dýrara,“ segir Baldvin Birgisson, skólastjóri Flugskóla Íslands.

„Gjöld hafa aukist á allt einkaflug, flugvélaeldsneyti er orðið dýrara auk þess sem að stjórnvöld túlka evrópskt regluverk tiltölulega þröngt hér á landi. Þetta hefur gert það að verkum að það er nokkuð dýrt að halda úti einkaflugvél sem þú kaupir. Hins vegar falla heimasmíðaðar flugvélar undir annan regluflokk og eru því aðlaðandi kostur fyrir áhugaflugmenn.“ Flugsmíð er íslenskt félag sem heldur utan um málefni heimasmíðaðra flugvéla í nánu samstarfi við flugmálastjórn.

Guðmundur Ásgeirsson og Orri Eiríksson eru í forsvari fyrir félagið en um 100 manns eru skráðir í það. „Þeir sem hafa einhverja aðstöðu og dálitla verkþekkingu geta smíðað sér fína flugvél í góðum einföldum bílskúr,“ segir Orri.

Nánar er fjallað er um málið í Flugblaði Viðskiptablaðsins sem kom út 10. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.