Samtök sem kalla sig Heimavarnarliðið hafa undanfarið unnið að því að skipuleggja aðgerðir sem ætlunin er að grípa til þegar fólk er borið út úr húsum sínum sem fullnustuaðgerð sýslumanns. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa nokkur hundruð manns skráð sig á lista með því fororði að vera tiltækir til boðunar þegar kemur að því að bera fólk út úr húsum. Ætla þeir að mæta á staðinn og trufla fógetaaðgerðir.

Eftir því sem komist verður næst er ætlunin að senda út SMS skilaboð til þeirra sem eru á lista og stefna þeim á þá staði þar sem verið er að bera út fólk. Margir þeirra sem eru í heimavarnarliðinu eru sjálfir í verulegum vandræðum með greiðslur vegna íbúðalána og hópurinn mun hafa orðið til í mótmálastöðum fyrir jól og áramót.

Ekki er hægt að segja til um hve margir gætu lent í því að þurfa að yfirgefa íbúðir sínar í kjölfar nauðungarsölu en stopp hefur verið á slíkar aðgerðir að undanförnu. Ekki mun vera ætlunin að beita ofbeldi en ljóst er að aðgerðir Heimavarnarliðsins geta kallað á verulegar stimpingar í kringum útburð.

Hvað er útburður?

Oftast lýtur útburðarbeiðni að því að fjarlægja gerðarþola af fasteign, afhenda gerðarbeiðanda umráð eignarinnar eða fjarlægja hluti af fasteign, sbr. 72. gr. laga nr. 90/1989.Útburðarbeiðni er beint til sýslumanns sem framkvæmir gerðina. Áður en það er gert verður gerðarbeiðandi að fá dóm eða úrskurð héraðsdóms sem kveður á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign, afhenda gerðarbeiðanda umráð hennar eða fjarlægja hluti af fasteign , sbr. 11. kafla laga nr. 90/1989 .