Hagnaður Heimavalla fyrstu þrjá mánuði ársins námu 99 milljónum íslenskra króna, sem er ríflega níföldun frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 11,7 milljónum. Rekstratekjur tímabilsins námu 906,3 milljónum króna, sem er aukning um 31% frá sama tíma fyrir ári.

Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna hækkaði á sama tíma um 19% frá sama tíma í fyrra og nam í heildina 275,5 milljónir króna. Annar rekstrarkostnaður nam 97,1 milljón og lækkaði um 9,3 milljónir á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 533,5 milljónum króna.

Fasteignir endurmetnar um 200 milljónir

Handbært fé frá rekstri nam 79,6 milljónum króna, en matsbreyting fjárfestingareigna nam 197,6 milljónum króna. Söluhagnaður fjárfestingareigna nam 48,4 milljónum króna. Vaxtaberandi skuldir námu 35.336,7 milljónum króna í lok tímabilsins, en eigið fé félagsins í lok tímabilsins var 17.686,4 milljónir króna. Eiginfjárhlutfallið nam 31,3%.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir uppgjörið vera í takt við væntingar og að rekstur félagsins sé á réttri leið. „Við erum að reka öflugt leigufélag með það að markmiði að stuðla að uppbyggingu almenns leigumarkaðar á Íslandi eins og þekkist á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu,“ segir Guðbandur.

„Við viljum auka fjölbreytni og fjölga valkostum á húsnæðismarkaði og erum stolt af því að nú þegar búa tæplega 2000 fjölskyldur hjá okkur í öruggri langtímaleigu um allt land.”

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 56,5 milljörðum króna þann 31. mars 2018. Þar af eru fjárfestingareignir 53,1 milljarður og fjárfestingareignir í byggingu 2.542,3 milljónir.

Eigið fé félagsins nam 17,7 milljörðum króna. Heildarskuldir félagsins námu 38,8 milljörðum þar af voru vaxtaberandi skuldir 35,4 milljörðum og tekjuskattsskuldbinding 2,6 milljörðum.