Stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, stefnir á skráningu félagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar í mars næstkomandi. Þetta staðfestir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, í samtali við Viðskiptablaðið.

Undir lok september síðastliðinn tilkynnti stjórn Heimavalla að félagið hefði tekið ákvörðun um að seinka fyrirhugaðri skráningu félagsins á markað. Ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafði verið slitið nokkrum dögum áður og boðað var til kosninga þann 28. október, en stjórnin taldi æskilegt að fresta skráningu þar til eftir kosningar.

„Við tókum okkur smá pásu en það er engan bilbug að finna á okkur. Við horfum til þess að fara með félagið á hlutabréfamarkað í mars næstkomandi á grundvelli tólf mánaða uppgjörs fyrir árið 2017. Þetta er þannig rekstur að við þurfum að eiga gott samstarf við fjármagnseigendur. Við þurfum aukið hlutafé til að vaxa og svo er fram undan mikið verkefni við að endurfjármagna reksturinn til að ná betri kjörum á langtímaskuldum.“

Mikil íbúðaþörf fyrir gamla fólkið

Hvað stöðu leigumarkaðarins varðar segir Guðbrandur að Heimavellir muni leggja sérstaka áherslu á íbúðir fyrir eldri borgara á næstunni.

„Það sem einkennir fasteignamarkaðinn er auðvitað skortur á húsnæði. Á sama tíma erum við að sjá góðan vöxt í efnahagslífinu og mikinn innflutning á erlendu vinnuafli. Þetta setur heilmikinn þrýsting á markaðinn. Það er því mikilvægt að það verði tiltölulega mikið byggt af hentugum og þá sérstaklega minni íbúðum á næstu árum til að koma til móts við unga fólkið og innflytjendur.

Við höfum einnig verið að horfa mikið til eldri borgaranna. Í hópnum 68 til 82 ára mun fólki fjölga að meðaltali um 1.400 til 1.500 manns á hverju ári næstu tíu árin. Það er því mikil þörf fyrir hagkvæmar leiguíbúðir fyrir eldri borgara. Við erum byrjuð að taka fyrstu skrefin í að mæta þeirri þörf, til dæmis með byggingu blokkar í Boðaþingi í Kópavogi nálægt Boðanum, sem er þjónustumiðstöð fyrir aldraða.

Almennt held ég að það sé mikill vöxtur fram undan á fasteignamarkaði. Það sem hefur einkennt hlutina upp á síðkastið eru þessi þéttingarverkefni, sem eru fín í sjálfu sér. En það er mikil þörf á hagkvæmum lóðum þar sem hægt er að koma með ódýrar lausnir og byggja tiltölulega hratt. Það er eitthvað sem þorrinn af markaðnum er að leita eftir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .