*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 9. maí 2018 10:09

Heimavellir metnir á 15,6 milljarða

Meðalútboðsgengi í hlutabréfaútboðinu var 1,39 krónur, sem er við neðri mörk verðbils útboðsgengisins.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Ekki kom til þess að nýta þyrfti heimild stjórnar Heimavalla til að bæta 150 milljón hlutum við í útboði félagsins sem stóð yfir síðustu tvo daga líkt og Viðskiptablaðið sagði frá. Útboðið opnar fyrir að félagið verði skráð á markað í lok maí eins og sagt hefur verið frá, en nú er gert ráð fyrir að viðskiptin hefjist fimmtudaginn 24. maí næstkomandi.

Alls seldust þeir 750 milljón hlutir, sem stefnt var að því að selja, á 1.043 milljónir króna, og var vegið meðalgengi í útboðinu 1,39 krónur. Það er rétt yfir lágmarksgengi útboðsins sem var 1,38 krónur, og töluvert lægra en 1,71 króna hámarkið.

Það var svo aftur lægra en verðmat Heimavalla sem Viðskiptablaðið greindi frá, en það miðaði vð 1,74 krónur á hlut, eða 25,2% yfir hinu endanlega útboðsgengi. Nemur heildarvirði alls hlutafjár í félaginu að lokinni þessari 6,7% hlutafjáraukningu því 15,6 milljörðum króna.

Ef efri mörkunum hefði verið náð hefði verðmætið numið 19,15 milljörðum króna, en verðmat Capacent gerði ráð fyrir tæplega 19,5 milljarða heildarvirði. Virði eignarsafns félagsins, sem samanstóð af 1.968 íbúðum í lok síðasta árs, nemur hins vegar 53,6 milljörðum króna.

Tóku 689 af 701 tilboði

Í útboðinu bárust alls 701 áskrift að heildarandvirði 1.690 milljón króna og ákvað stjórn félagsins að taka 689 tilboðum í 750 milljón nýja hluti fyrir rúman milljarð króna.

Í tilboðsbók A, þar sem áskriftir voru 100.000-500.000 krónur að kaupverði, er útboðsgengi 1,33 krónur á hlut sem var fyrirfram ákvarðað 5% lægra en útboðsgengi í tilboðsbók B. Hámarksúthlutun í þessum hluta útboðsins er 500.000 krónur að kaupverði og áskriftir ekki skertar. Samtals voru seldir tæplega 140 milljón hlutir í tilboðsbók A á tæplega 186,2 milljónir króna.

Í tilboðsbók B, þar sem fjárfestar skiluðu áskriftum á verðbilinu 1,38-1,71 krónur á hlut fyrir 550.000-10.000.000 krónur að kaupverði, er útboðsgengi 1,40 krónur á hlut. Þeir fjárfestar sem tilgreindu lægra hámarksverð í áskrift sinni fá engu úthlutað í tilboðsbók B. Áskriftir í tilboðsbók B eru ekki skertar undir 550.000 krónur að kaupverði, skerðing áskrifta á útboðsgengi í tilboðsbók B er að öðru leyti hlutfallsleg. Samtals voru seldir 380 milljón hlutir í tilboðsbók B á 532 milljónir.

Í tilboðsbók C var tekið við áskriftum yfir 10.000.000 krónur á lágmarksverðinu 1,38 krónur á hvern hlut. Útboðsgengi í tilboðsbók C er 1,41 króna á hlut. Þeir fjárfestar sem tilgreindu lægra verð í áskrift sinni fá engu úthlutað í tilboðsbók C. Skerðing áskrifta á útboðsgengi í tilboðsbók C er hlutfallsleg. Í tilboðsbók C seldust námkvæmlega 230 milljón hlutir á 324,3 milljónir.

Fleiri fréttir um málefni Heimavalla: