Töluverð viðskipti voru með hlutabréf í Kauphöllinni í dag eða fyrir samtals 3,5 milljarð króna og hækkaði Úrvalsvísitalan um tæpt prósent og er nú skráð 2.060 stig.  Stærstu viðskiptin vorum með bréf Heimavalla eða fyrir tæpar 950 milljónir króna en bréfin lækkuðu um 4,1% í  viðskiptunum sem er mesta lækkun dagsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær þá seldi félagið Frostaskjól ehf. hluti í Heimavöllum fyrir 560 milljónir króna á genginu 1,1 króna á hlut, sem var jafnframt lokaverð bréfanna í dag.

Einnig voru mikil viðskipti með bréf Sýnar sem hækkuðu mest í dag eða um 2,7% í viðskiptum fyrir 635 milljónir króna. Marel hækkaði næst mest eða um 1,7% í viðskiptum fyrir 450 miljónir króna. Þá hækkuðu bréf Iceland seafood eða um 0,6% í viðskiptum fyrir tæpar 600 milljónir, sem var þriðja mesta hækkunin og þriðja mesta veltan í dag.

Auk Heimavalla þá lækkuðu bréf í Högum um 0,7% í viðskiptum fyrir 113 milljónir króna. Þá lækkuðu bréf Icelandair um 0,6% í viðskiptum fyrir 15 milljónir króna.

Velta á markaði með skuldabréf nam 3,4 milljörðum í dag en viðskiptin voru öll með óverðtryggð skuldabréf. Mest voru viðskipti með RIKB 25 eða fyrir tæpan milljarð króna og lækkaði krafan um 3 punkta.