Stjórn Heimdallar, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur sent frá sér ályktun þar sem lagst er alfarið gegn frumvarpi Höskuldar Þórhalldssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um skipulagsvald yfir Reykjavíkurflugvelli.

Í ályktuninni segir að ekki sé boðlegt að sjálfstæði sveitarfélaga sé skert vegna þess að tilteknir þingmenn hafi aðra sýn á hvernig Reykjavík eigi að vera skipulögð. Eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hvattir til að kjósa gegn frumvarpinu og vinna að auknu sjálfstæði sveitarfélaga.

Ályktunin í heild:

„Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, leggst alfarið gegn frumvarpi Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Verði frumvarpið að lögum tekur ríkið yfir skipulagsvald yfir öllum flugvöllum sem geta sinnt millilandaflugi, þar með töldum Reykjavíkurflugvelli.

Ekki er boðlegt að sjálfstæði sveitarfélaga sé skert vegna þess að tilteknir þingmenn hafa aðra sýn á hvernig Reykjavík eigi að vera skipulögð. Vilji þingmennirnir hafa áhrif á skipulagsmál sveitarfélaga ættu þeir að bjóða sig fram til sveitarstjórnar en ekki Alþingis. Lýðræði virkar best þegar það er sem næst borgurunum enda hefur þróunin verið sú að fleiri verkefni eru færð frá ríkinu til sveitarfélaga. Eykur slíkt fyrirkomulag fjölbreytni og flóru Íslands. Hvorki er skynsamlegt né eðlilegt að þingmenn sem ekki búi í Reykjavík stýri því hvernig borgin er skipulögð. Skipulagsvaldið er hornsteinn sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga og ber að vernda þann rétt sveitarfélaganna.

Hvetur því stjórn Heimdallar þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til að kjósa gegn frumvarpinu og vinna að auknu sjálfstæði sveitarfélaga.“