Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, skorar á þingflokk Framsóknarflokksins að beita sér í auknum mæli fyrir lækkun matarskatta. Þetta kemur fram í ályktun félagsins sem send var á fjölmiðla í dag.

Heimdellingar benda á að fjölmargir þingmenn Framsóknarflokksins hafi gagnrýnt fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti sem snertir matvörur og jafnframt beitt sér fyrir röksemdum þess efnis að hátt matarverð bitni á fjárhag heimilanna. Heimdallur kveðst taka undir þessa gagnrýni en hvetur þó Framsóknarmenn til að beita eigin rökum á landbúnaðarstefnu sína. Framsóknarflokkurinn styðji háa verndartolla á innfluttum matvælum í því skyni að vernda íslenskan landbúnað, en tollarnir hækki þó verð á matvælum og minnki ráðstöfunartekjur heimilanna. Lækka mætti verð á matvælum stórlega með afnámi verndartolla og ýmissa gjalda.

Loks segir í ályktuninni að sé Framsóknarflokknum alvara með þessari gagnrýni hljóti hann að vilja endurskoða tolla- og vörugjaldakerfið á Íslandi með það í huga að lækka matarverð.