*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Erlent 19. janúar 2021 14:11

Heimila endurkomu Max véla í Evrópu

EASA hyggst útlista kröfur til búnaðar og þjálfunar flugmanna Boeing 737 Max vélanna í næstu viku.

Ritstjórn
Ein af Boeing 737 MAX vélum Icelandair á flugi fyrir kyrrsetningu vélanna.
Haraldur Guðjónsson

Flugmálayfirvöld í Evrópusambandinu, EASA, stefna á að byrja að heimila Boeing 737 MAX vélunum að snúa aftur í áætlunarflug í næstu viku að því er Bloomberg fréttastofan greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun stefnir í að Kanada veiti sams konar heimild strax á morgun, en flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og Brasilíu hafa þegar opnað fyrir flug véla af þessari gerð.

Vélarnar hafa verið kyrrsettar í 22 mánuði eftir tvö mannskæð flugslys í Eþíópíu og Indónesíu sem talin eru orsakast af því að sjálfstýribúnaður hafi tekið yfir stjórn vélanna í flugtaki. Í flugslysunum létust 346 manns, en vélarnar voru kyrrsettar í kjölfar seinna slyssins í mars 2019.

Heimild EASA mun útlista ítarlega hvaða breytingar flugfélög á Evrópska efnahagssvæðinu þurfi að gera á vélunum og í þjálfun flugmanna til að taka vélarnar inn í áætlunarflug sitt.

Bretar munu samþykkja sér

Bresk flugmálayfirvöld, sem ekki eru lengur aðilar að EASA í kjölfar þess að landið gekk úr Evrópusambandinu, munu gera eigin samþykkt fyrir flugi vélanna, en þau starfa enn náið með EASA samkvæmt tvíhliða samningi þar um.

Ryanair hyggst byrja að fljúga Max vélum sínum strax í apríl, en samkvæmt umfjöllun Guardian mun flugfélagið fá heimild til notkunar nýrrar vélar af þessari gerð á næstu vikum og því hægt að taka þær í notkun fyrir komandi sumaráætlun. Patrick Ky, forstjóri EASA, er viss um að með breytingunum sem samþykktar verða nú muni Boeing 737 Max vélarnar uppfylla öryggisstaðla.

„Við teljum okkur vita hvað gerði í Max slysunum,“ sagði Ky á fundi með blaðamönnum.

Upphaflega vildi stofnunin að bætt yrði við þriðja nemanum á vélarnar sem mæla halla og vindhraða, þar sem sjálfstýribúnaðurinn tók yfir stjórn vélarinnar vegna mislestrar úr slíkum mæli, en á fundinum nú viðurkenndi Ky að það væri of erfitt í framkvæmd.

Þess í stað væri í þróun hugbúnaður sem safnaði saman upplýsingum frá öðrum nemum sem gæti virkað eins og slíkur nemi og þannig mælt þann vind sem mæddi á vélinni.

Jafnframt væri flugmönnum uppálagt að taka úr sambandi viðvörunarbúnað sem hristi stýri vélarinnar í neyðartilvikum, en flugmálayfirvöld í Evrópu og Kanada hafa haft áhyggjur af því að búnaðurinn geti truflað flugmenn og gert þeim erfiðar fyrir.

Stikkorð: flugmálayfirvöld EASA