Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar kaup Öskju ehf. (Askja) á hluta af rekstri Bernhards ehf. (Bernhard), er snýr að umboði fyrir Honda á Íslandi. Frá þessu er greint á vef Samkeppniseftirlitsins.

Samruninn var tilkynntur með svokallaðri styttri samrunaskrá þann 10. maí 2019. Askja er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi, sölu og þjónustu á bifreiðum frá Mercedes-Benz og Kia. Fyrirtækið er til húsa að Krókhálsi, Reykjavík, þar sem meðal annars er rekið bifreiðaverkstæði, varahlutaþjónusta og sýningarsalir fyrir fólksbifreiðar. Bernhard er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi, sölu og þjónustu á bifreiðum og öðrum tækjum frá Honda. Fyrirtækið er til húsa að Vatnagörðum í Reykjavík þar sem meðal annars er að finna bifreiðaverkstæði og sýningarsal fyrir Honda bifreiðar.

Eftir rannsókn á samrunanum var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki væru fyrir hendi forsendur til að aðhafast frekar vegna samrunans á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga.