Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað kaup Samkaupa á Kjarvalsversluninni á Hellu og verslun Krónunnar í Nóatúni 17 af Festi. Sala verslunarinnar á Hellu var eitt af skilyrðum sáttar Festi og SKE vegna samruna Festi og N1 í apríl 2018. Festi, móðurfélag Krónunnar, hefur nú fullnægt skyldu sinni samkvæmt sáttinni, að því er kemur fram í tilkynningu SKE.

Verslunin á Hellu var mikið í umræðunni í mars síðastliðnum eftir að SKE hafnaði því að Sigurðar Elías Guðmundsson myndi kaupa verslunina þar sem eftirlitið taldi hann ekki vera óháðan Festi, m.a. vegna rökstudds álits óháðs kunnáttumanns sem skipaður var vegna framgreindar sáttar.

Í ákvörðun SKE segir að engin skylda hafi hvílt á Festi að selja verslun Krónunnar í Nóatúni í Reykjavík samkvæmt sáttinni.
Eftirlitið áætlar að eftir að verslunin í Nóatúni færist til Samkaupa, þá verði Festi með 25-30% markaðshlutdeild á höfuðborgarsvæðinu og Hagar með 40-45% miðað við þær markaðsupplýsingar sem stofnunin býr yfir fyrir fyrstu mánuði ársins 2019. Samkaup verður með í kringum 10-15% hlutdeild eftir kaupin.

„Með vísan til framangreindra atriða er það mat Samkeppniseftirlitsins að rannsóknin bendi til þess að áhrif samrunans verði ávallt á þá vegu að styrkja Samkaup á kostnað Festi á samkeppnismarkaði fyrir smásölu dagvöru. Ætti sala verslunarinnar í Nóatúni til Samkaupa því að styrkja félagið og gera því kleift að veita Festi og Högum, tveimur stærstu fyrirtækjunum á markaðnum, sterkt aðhald með mögulegum tilheyrandi jákvæðum samkeppnislegum áhrifum á dagvörumarkaði,“ segir í ákvörðun SKE.