Samkeppniseftirlitið gaf í dag grænt ljós á kaup Nordic Visitor á ferðaskrifstofunni Iceland Traval af Icelandair. Nordic Visitor keypti einnig ferðaskrifstofuna Terra nova Sól af Arion banka í febrúar 2020 og því verður hið sameiginlega félag eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Nordic Visitor, sagði í viðtali við Markaðinn í sumar að fyrirtækin verði rekin áfram sem sjálfstæðar einingar. Stofnað verði móðurfélag fyrir samstæðuna á næstunni sem mun meðal annars sjá um stoðþjónustu rekstrarins.

Heildarvirði (e. enterprise value) Iceland Travel er metið á 1,4 milljarða króna í kaupsamningnum en þar af eru 350 milljónir háðar frammistöðutengdum mælikvörðum út árið 2023.

Þegar tilkynnt var um kaup Nordic Visitor á Iceland Travel í júní kom fram að Alfa Framtak myndi fjármagna viðskiptin. Framtakssjóðurinn Umbreyting slhf., í rekstri Alfa Framtaks, mun kaupa 26% hlut í Nordic Visitor samhliða kaupum ferðaskrifstofunnar á Iceland Travel af Icelandair, samkvæmt samrunaskrá. Stærstu hluthafar Umbreytingar er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 15% hlut, LSR með 14,3% hlut og Snæból ehf. með 11,1% hlut.

Eftir hlutafjáraukningu sem fer fram við samruna AU1, sjóðs í eigu Umbreytingar, og Nordic Visitor þá mun Ásberg fara með 51,7% hlut. Davíð Harðarson stjórnarformaður mun eiga 15% hlut.

Rekstrartekjur Nordic Visitor drógust verulega saman á síðasta ári og námu 548 milljónum króna, amanborið við 4,1 milljarð árið 2019. Tekjur Terra Nova drógust saman um rúmlega 80% og námu 308 milljónum á síðasta ári. Tekjusamdráttur Iceland Travel var um 85% en tekjur félagsins námu 1,2 milljörðum á síðasta ári samanborið við 8,5 milljarða árið áður.

Verði ekki til markaðsráðandi staða

Fyrirhuguð kaup Nordic Visitor á Iceland Travel voru tilkynnt til SKE þann 30. júní. „Að fengnum neikvæðum athugasemdum keppinauta og viðskiptavina, og vegna mögulegra áhrifa samrunans á samkeppni,“ þá ákvað eftirlitið að fara með rannsókn á samrunanum í fasa tvö.

Samkeppniseftirlitinu bárust sex umsagnir vegna samrunans frá keppinautum og fyrirtækjum í framleiðslu  á  ferðaþjónustu  hérlendis – „flestar  neikvæðar“. Þar var viðrað áhyggjum að með samrunanum yrði til ferðaskrifstofa í markaðsráðandi stöðu hérlendis

SKE komst að þeirri niðurstöðu að með samrunanum yrði ekki til markaðsráðandi staða eða umtalsverð röskun á samkeppni og því ekki tilefni til íhlutunar.

Í samrunaskránni kom fram að eftir þau miklu áföll sem dunið hafa yfir vegna Covid-faraldursins, bæði í rekstri Nordic Visitor og almennt í ferðaþjónustu á heimsvísu, sé þörf fyrir hagræðingu í ferðmannaiðnaði og það sé öðrum þræði tilgangur Nordic Visitor með kaupunum á Iceland Travel af Icelandair. Hagræðingin sé einkum fólgin í samlegðaráhrifum í rekstri, bæði með því að samnýta  starfsemi stoðdeilda (yfirstjórn,  bókhald,  fjármálastjórn,  mannauður,  innkaup  og  upplýsingatækni)  og hagnýta þá þekkingu sem fyrir er hjá fyrirtækinu.

„Nordic Visitor líti svo á að með samrunanum verði fyrirtækin betur í stakk búin til að markaðssetja Ísland sem áfangastað í samkeppni við aðra áfangastaði í heiminum, en ekki síður til að mæta harðnandi samkeppni í ferðaþjónustu m.a. gagnvart risavöxnum, erlendum ferðaþjónustu- og tæknifyrirtækjum.“