*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Erlent 9. janúar 2020 18:01

Heimila millifærslu til múrsins

Áfrýjunardómstóll féllst á kröfu stjórnar Donald Trump um að heimilt væri að færa fjármuni frá varnarmálum í byggingu veggsins.

Ritstjórn
Forsetinn er mikill aðdáandi þess að reisa vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
epa

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur fallist á kröfu ríkisstjórnar Donald Trump þess efnis að heimilt sé að nota fjármuni ætlaða varnarmálum til að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna á Mexíkó. Dómstóll í Texas hafði áður hafnað því að slíkt væri heimilt. CNN segir frá.

Í september á síðasta ári heimilaði varnarmálaráðherra Bandaríkjanna að væra 3,6 milljarða dollara til byggingar ellefu verkefna tengt veggnum. Um helmingur upphæðarinnar hafði áður verið ætlaður í verkefni hersins á erlendri grund en hinn helmingurinn í verkefni heima fyrir. Um er að ræða aðra fjármuni en hæstiréttur ríkjanna hafði heimilað stjórninni að nota í september í fyrra.

Um nokkurn sigur fyrir forsetann er að ræða. Það er lesendum eflaust í fersku minni að árið í fyrra hófst með 35 daga lokun ríkisstofnana vestanhafs. Sú staða hafði myndast vegna pattstöðu milli þingsins og forsetans þar sem þingið neitaði að fjármagna uppbyggingu múrsins. Sátt náðist í febrúar þegar þingið samþykkti að veita 1,4 milljarða dollara til verksins.

Forsetinn taldi þá upphæð nánasarlega og var sú leið farin að lýsa yfir neyðarástandi og færa fjárveitingar milli málaflokka. Þeirri aðgerð var harðlega mótmælt ytra enda töldu margir að með því væri verið að sneiða hjá fjárveitingarvaldinu, það er bandaríska þinginu. Dómari í Texas hafði hafnað því að sú aðgerð teldist lögleg en nú hefur áfrýjunardómstóll komist að öndverðri niðurstöðu.

Ekki liggur fyrir hvort málið mun rata alla leið til hæstaréttar landsins.