Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað kaup Måsøval Eiendom AS á meirihluta hlutafjár í Ice Fish Farms AS, sem áður hét Fiskeldi Austfjarða. Þetta kemur fram í ákvörðun SKE.

Bæði félög reka laxeldi á Austfjörðum en SKE taldi þó ekki tilefni til íhlutunar þar sem að ekki var talið að samkeppni myndi verulega raskast eða að markaðsráðandi staða myndi styrkjast eða myndast. Hlutdeild samrunaaðila á markaði fyrir leyfi til sjókvíaeldis við Íslandstrendur er á bilinu 40 til 50% Sé litið til markaðarins fyrir Laxeldi og frumvinnslu á EES-svæðinu er markaðshlutdeild samrunaaðila um 0 til 5%.

Á síðasta ári gerðu norsku félögin Måsøval og Midt-Norsk Havbruk AS samning um kaup Måsøval á hlutum í Ice Fish Farm gegn greiðslu með hlutafé í öðrum norskum fiskeldisfélögum. Á móti eignast Måsøval 55,6% af útgefnu hlutafé Ice Fish Farm.

Ice Fish Farm er eignarhaldsfélag sem á allt hlutafé í Fiskeldi Austfjarða ehf. Måsøval er meirihlutaeigandi Laxa fiskeldis sem rekur seiðaeldisstöðvar að Bakka og Fiskalóni í Ölfusi og framleiðir lax í sjókvíum í Reyðarfirði.