Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að íhlutast í samruna Icepharma og Lyfis. Icepharma keypti meirihluta hlutafjár í Lyfis en síðarnefnda fyrirtækið horfir fram mikinn samdrátt í veltu eftir að það missti umboð fyrir vörur Teva/Ratiopharm.

Þó segir Samkeppniseftirlitið í úrskurði sínum um samrunann að það hafi undir höndum gögn sem sýni samþjöppun á markaði í nokkrum flokkum lyfja. Að Icepharma og Lyfis muni hafa allháa markaðshlutdeild í fimm tilgreindum lyfjaflokkum. Ekki hafi hins vegar komið fram rökstudd sjónarmið frá keppinautum eða opinberum aðilum um að samruninn muni hafa neikvæð áhrif á samkeppni.

Á síðasta ári nam velta Icepharma um 9 milljörðum króna og var helmingur hennar tilkominn frá lyfjasviði félagsins. Velta Lyfis var aftur á móti um 615 milljónir króna.