Samkeppniseftirlitið heimilaði síðastliðinn föstudag samstarf hópbifreiðafyrirtækjanna Kynnisferða og Airport Direct. Samstarfið miðar að tímabundinni samnýtingu á bifreiðaflota fyrirtækjanna á áætlunarleiðinni á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Frá þessu greinir Samkeppniseftirlitið.

Er undanþágunni ætlað að gera fyrirtækjunum kleift að bregðast við því fordæmalausa ástandi sem stafar af heimsfaraldri af völdum COVID-19. Samstarfið skal einungis felast í því að samnýta ferðir hópferðabifreiða fyrirtækjanna á áætlunarleiðinni á undanþágutímabilinu.

Á meðal þeirra skilyrða sem samstarfið er bundið má nefna að öll samskipti á milli fyrirtækjanna skulu vera afmörkuð við markmið samstarfsins. Ferðamálastofa skal gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að samstarfinu, tilgangur þess er að tryggja að Ferðamálastofa geti öðlast yfirsýn yfir þær aðgerðir sem keppinautar á markaðnum grípa til að þessu leyti.

Enn fremur skal þess gætt að ekki komi til samræmingar á verði samstarfsaðila með nokkrum hætti. Þá er það jafnframt forsenda samstarfsins að samstarfsaðilar sinni sjálfir eigin markaðsmálum og selji áfram ferðir á áætlunarleiðinni með sjálfstæðum hætti, það er að segja, eftir eigin söluleiðum.

Við veitingu undanþágu í máli þessu hafði það sérstaka þýðingu að á Kynnisferðum og Airport Direct hvílir skylda, á grundvelli samningsskuldbindinga við Isavia, til að hafa áætlunarferðir til og frá flugstöðinni starfræktar í tengslum við allar komur og brottfarir áætlunar- og leiguflugvéla á Keflavíkurflugvelli.