Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að veita stjórn Orkuveitu Reykjavíkur umboð til að hefja undirbúning að sölu á allt að 49% hlut í Gagnaveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir einnig að eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur hefur skilgreint kjarnastarfsemi  fyrirtækisins í samræmi við aðgerðaáætlun þess og hefur hún nú verið samþykkt af öllum eigendum sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

Þá hefur eigendanefndin samþykkt að markmið Reykjavíkurborgar og annarra eigenda sé að efla búsetuskilyrði og samkeppnishæfni atvinnulífs í sveitarfélögunum, traustir innviðir séu þar lykilþáttur og mikilvægi afkastamikillar gagnaveitu fari vaxandi.  Því vilja eigendur Gagnaveitunnar hafa hönd í bagga með þróun grunnnets samskipta, sem verður best tryggt með áframhaldandi virkum eignarhlut í opnu grunnneti sem hvetur til samkeppni þjónustuaðila, dregur úr hættu á offjárfestingu og rekið er með hóflegri arðsemi.

Að þessu tryggðu leggur eigendanefndin til að stjórn OR fái umboð til að hefja undirbúning að sölu 49% hluts í Gagnaveitu Reykjavíkur. Áframhaldandi meirihlutaeign Orkuveitu Reykjavíkur er ætlað að stuðla að því markmiði að tryggja hagstætt verð, opna samkeppni og meirihlutaeign almennings.

Endanleg ákvörðun um að selja hlutinn verður þó að leggja fyrir eigendur Orkuveitunnar áður en frá sölunni verður gengið.