Lög um 200 milljón dala, 24,5 milljarða króna, ríkisábyrgð vegna fjármögnunar á starfsemi Íslenskrar Erfðagreiningar, dótturfyrirtækis DeCODE, eru enn í gildi.

Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu gæti DeCODE því enn sótt um ríkisábyrgðina en fjármálaráðherra þyrfti þá að samþykkja hana og skrifa undir samninga þess efnis. DeCODE dró ósk um ríkisábyrgðina til baka á sínum tíma og því var hún aldrei veitt. Íslenska ríkið er því ekki í ábyrgð fyrir neinum af skuldum félagsins.

DeCODE hefur óskað eftir greiðslustöðvun í Bandaríkjunum og fer að öllum líkindum í slitameðferðí kjölfarið. Það þýðir að félagið stefnir í gjaldþrot. Dótturfyrirtækið Íslensk Erfðagreining og öll starfsemi þess verður seld til bandaríska fyrirtækisins Saga Investments. Starfsemi þess á Íslandi mun halda áfram.

Aldrei í gildi vegna þess að Decode fékk hana aldrei

Sagt var frá því í mars 2008 að heimild til veitingar ríkisábyrgðarinnar væri enn til í lögum. Þá unnu lögmenn á nefndarsviði Alþingis og sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu álit á því hvort ábyrgðin væri enn í gildi.

Í svari þeirra, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram að „eftir standa hins vegar lögin og verður að telja að ráðherra hafi enn þá heimild til að veita ríkisábyrgð komi ný beiðni um slíkt frá ÍE (innsk. blaðam. Íslensk Erfðagreining)“.

Kári Stefánsson, forstjóri DeCODE, sagði við fjölmiðla í kjölfarið að hann liti svo á að ábyrgðin hefði aldrei verið í gildi þar sem fyrirtækið hefði aldrei fengið hana. DeCODE dró beiðni um ríkisábyrgðina til baka eftir að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hafði haft ríkisábyrgðina til skoðunar í lengri tíma á þess að niðurstöðu væri að vænta. DeCODE fjármagnaði sig á endanum á einkamarkaði og þurfti því ekki á ábyrgðinni að halda.

Afar umdeild ríkisábyrgð

Ábyrgðin, sem var fest í lög 23. maí 2002, er ekki bundin neinum tímaramma og því þarf lagabreytingu til að fella hana út úr íslenskum lögum. Ábyrgðin var gífurlega umdeild á sínum tíma og harðlega gagnrýnd. Ágúst Einarsson, sem nú er rektor Háskólans á Bifröst sagði í Morgunblaðinu í apríl 2002 að hún væri óskynsamleg, að hún mismuni fyrirtækjum og að ríkið ætti ekki að  veita slíkar ábyrgðir nema við sérstakar aðstæður. Þær væru ekki fyrir hendi í þessu tilviki. Hann sagði ennfremur að ákvörðun um veitingu ábyrgðarinnar vera pólitíska.

Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnarandstaðan gangrýndu ábyrgðina sömuleiðis. Þuríður Backmann, þingkona Vinstri grænna, lýsti yfir áhuga á að leggja fram frumvarp til að fjarlægja heimildina til ríkisábyrgðar úr lögum í umræðum um málið á Alþingi í apríllok 2008. Það frumvarp hefur ekki verið lagt fram.