Fjáramálráðneytið hefur gefið út tilkynningu varðandi það að samkvæmt lögum var stofnun Spkef sparisjóðs heimil.

"Í tilefni af umfjöllun um heimildir fjármálaráðherra til að stofna Spkef sparisjóð í því skyni að taka við rekstri Sparisjóðsins í Keflavík, telur ráðuneytið tilefni til að benda á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 125/2008, oft nefnd neyðarlög, hefur fjármálaráðherra heimild til þess að stofna nýtt fjármálafyrirtæki til þess að taka yfir reksturs annars fjármálafyrirtækis sem komið er í þá stöðu að það getur ekki lengur starfað. Hugtakið fjármálafyrirtæki er ekki bundið við tiltekið félagaform, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki geta fjármálafyrirtæki verið annað hvort hlutafélög eða sparisjóðir. Lagaheimildin hljóðar svo:
Við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.
Að halda því fram að heimildir fjármálaráðherra samkvæmt framangreindu ákvæði séu bundnar við að stofna hlutafélag fremur en sparisjóð er þannig augljóslega rangt," segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Árný J. Guðmundsdóttir, lögfræðingur, taldi a lagaheimild fyrir Spkef hafi ekki verið fyrir hendi. Þetta kom fram í aðsendri grein í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.