Finnska tryggingaeftirlitið (ISA) hefur tilkynnt Exista hf. (Exista) í bréfi  dagsettu 5. apríl 2007 að eftirlitið geri ekki athugasemd við að Exista fari með 15,58% heildarhlutafjár í finnska fjármálaþjónustufyrirtækinu Sampo Oyj Sampo). Felur það í sér að Exista er heimilt samkvæmt finnskum lögum að eignast allt að 20% hlut í Sampo án frekara samþykkis frá ISA segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Eins og fram kom í tilkynningu Exista frá 8. febrúar 2007 var samningur um kaup Exista á 90.121.408 A-hlutum  Sampo m.a. háður samþykkis eftirlitsstofnana. Skilyrði kaupanna hafa nú verið uppfyllt og viðskipti geta því farið fram.

Gengið verður frá kaupunum 11. apríl nk. Samkvæmt samningi yfirtekur Exista 55.340.400 A-hluti í Sampo sem eru í vörslu Exafin B.V. í Hollandi, dótturfélags í óbeinni eigu Tchenguiz Family Trust. Greitt verður fyrir bréfin með 772.134.791 hlut í Exista, sem skiptist upp í 522.346.339 nýútgefna hluti og 249.788.452 þegar útgefna eigin hluti, auk þess sem Exista hefur frá áramótum tryggt sér rúmlega 2 milljarða evra í lánafyrirgreiðslur sem m.a. verða nýttar til greiðslu á hlutum í Sampo. Eftir viðskiptin ræður Exista yfir 15.58% af heildarhlutafé í Sampo.

Fjárhagslegur styrkur Exista til þess að ráðast í kaupin er traustur og er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall samstæðunnar verði yfir 40% eftir viðskiptin. Stjórn Sampo hefur lagt til við aðalfund sem fram fer 12. apríl næstkomandi að greiddar verði 1,2 evrur á hlut í arð til hluthafa. Verði tillagan samþykkt koma ríflega 108 milljónir evra í hlut Exista á arðgreiðsludegi þann 24. apríl næstkomandi.

Með vísan í tilkynningu Exista frá 8. febrúar 2007 hefur stjórn Exista ákveðið að hækka hlutafé félagsins um 522.346.339 hluti samkvæmt heimild í 4. gr. samþykkta félagsins. Meðalverð hinna nýútgefnu hluta er 24,60 krónur á hlut og ræðst það meðal annars af dagslokagengi á viðmiðunardegi samnings, sem var 17. janúar 2007, og uppreiknuðu gengi á arðgreiðsludegi. Hinir nýju hlutir svara til 4,8% heildarhlutafjár í Exista fyrir hlutafjárhækkun og 4,6% heildarhlutafjár eftir hækkun. Heildarhlutafé Exista eftir hlutafjárhækkun verður 11.361.092.458 krónur sem skiptist í jafnmarga hluti að nafnverði 1 króna hver.

Stefnt er að skráningu hinna nýju hluta á Aðallista OMX Nordic Exchange á Íslandi eigi síðar en 16. apríl 2007 og hefjast viðskipti með þá daginn eftir skráningu. Aðeins er skráður einn flokkur hluta í Exista. Hinir nýju hlutir
verða í sama flokki og njóta sömu réttinda og aðrir hlutir í félaginu frá útgáfu hlutanna hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf.

Samkvæmt samningi á milli kaupanda og seljanda er 12 mánaða sölubann (e. lock-up) á 579.101.093 hlutum í Exista frá og með uppgjörsdegi, 11. apríl, af hálfu Tchenguiz Family Trust. Eins og fram hefur komið var Robert Tchenguiz kjörinn í stjórn Exista á aðalfundi félagsins 14. mars síðastliðinn.