Fyrirtækið Allskonar Myndir hefur náð samkomulagi við Focus Features um dreifingu á heimildarmyndinni Gnarr í Norður Ameríku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Allskonar myndum. Gnarr er heimildarmynd Gauks Úlfarssonar leikstjóra, en þar er Jóni Gnarr, borgarstjóra Reykjavíkur, fylgt eftir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 2010. Myndin fer á markað í Norður-Ameríku í lok febrúar.

„Focus er vandað fyrirtæki sem vinnur með fáa en vel þekta og listræna titla. Má þar m.a. telja myndir á borð við Brokeback Mountain, The Pianist, Eastern Promises og Lost In Translation,“ segir í tilkynningunni.

Enn fremur kemur fram að Gnarr var heimsfrumsýnd á hinni virtu Tribeca hátíð í New York í vor, og hefur síðan þá verið vinsæl á kvikmyndahátíðum. Myndin hefur hlotið tilnefningar og verðlaun, meðal annar sem besta erlenda heimildarmyndin á Treverse City Film Festival. Þá hátíð sér heimildargerðarmaðurinn Michael Moore um. Gaukur fékk þar einnig verðlaun sem besti leikstjórinn.